21.12.2007 | 11:11
Loksins komin í jólafrí
Þá er ég loksins komin í langþráð jólafrí. Síðust dagar hafa verið erfiðir. Börnin eru orðin spennt og það er erfitt að halda þeim við efnið. Síðasti dagur var eins og þegar beljum er hleypt út á vorin. Börnin voru fríinu fegin og þustu út eins og til að anda að sér súrefni. Ég naut þess að komast í heimsókn í mömmu, sem dvelur á Grund og vera hjá henni lengur en ég venjulega get. Hún er 92ja ára, komin í hjólastól og lifir í sínum heimi. En líður vel. Þegar ég sat hjá henni fór ég að hugsa til baka og rifja upp gamla daga. Lífið fer eiginlega í hringi.
Við fæðumst og fáum ást og umhyggju frá foreldrum. Þau aðstoða okkur í uppvexti og að koma okkur á fætur í lífinu. Síða leikum við svolítið lausum hala í einhver ár. Eignumst okkar börn, mörg hver, komum þeim á legg og fótum þau í þeirra lífi eftir bestu getu. Oft á tíðum gerum við það sama, í uppeldi okkar barna, það sem okkur var kennt í okkar uppeldi, nema snúum því til nýrra tíma. Síðan snúum við okkur aftur að foreldrum, þeim sem eru á lífi, aðstoðum þau, eftir bestu getu, í þeirra lífi. Það er nefnilega þannig að tvisvar verður maður barn.
Á elliheimilinu Grund starfar, upp til hópa, mjög gott starfsfólk. Það hugsar rosalega vel um gamla fólkið. Veitir því alla þá hjálp og umhyggju sem það þarf á að halda. Það er mikið um útlendina í vinnu, en það getur allt tjáð sig á íslensku og er mjög hlýlegt í viðmóti til gamla fólksins. Það er mjög sorglegt að vinna þessa fólks, sem starfar á þessum stöðum, skuli ekki vera meira metin en hún er. Það er vinnu og hlýju þessa starfsfólks að þakka að ég get treyst því að hún fái góða þjónustu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.